Tottenham fyrir blóðtöku

Jan Vertonghen leiddur af velli um liðna helgi.
Jan Vertonghen leiddur af velli um liðna helgi. AFP

Tottenham hefur orðið fyrir blóðtöku, en í dag kom í ljós að miðvörðurinn Jan Vertonghen verður frá keppni í að minnsta kosti sex vikur. Hann er með sködduð liðbönd í ökkla og óttast var að hann yrði jafnvel enn lengur frá.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, staðfesti einnig að hann myndi ekki reyna að sækja sér liðsauka nú í janúar til þess að fylla skarð Vertonghen. Hann meiddist í 4:0-sigrinum á West Brom um liðna helgi þar sem hann sneri sig illa.

„Við erum með leikmenn sem geta komið í stað hans og erum mjög ánægðir með þann leikmannahóp sem við höfum,“ sagði Argentínumaðurinn.

Vertonghen hefur spilað 20 af 21 deildarleik Tottenham á tímabilinu, en liðið hefur aðeins fengið á sig 14 mörk það sem af er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert