Leikmaður Hull er í lífshættu

Samstuðið á milli Cahill og Mason.
Samstuðið á milli Cahill og Mason. AFP

Breska dagblaðið Mirror segir frá því að Ryan Mason, leikmaður Hull City, sé í lífshættu á spítala eftir meiðsli sem hann varð fyrir í leik gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Mason lenti þá í harkalegu samstuði við Gary Cahill, varnarmann Chelsea, og höfuðkúpubrotnaði hann fyrir vikið ásamt því að það blæddi inn á heila leikmannsins og mun hann fara í aðgerð vegna meiðslanna. 

Miðjumaðurinn var borinn af velli eftir atvikið og tafðist leikurinn í um sex mínútur vegna þess. Gary Cahill fékk líka aðhlynningu áður en hann hélt leik áfram. 

Mason þurfti að fá súrefni í lungun á leið sinni af vellinum og var hálsinn á honum settur í spelku. Það var því greinilegt að um alvarleg meiðsli var að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert