Southampton fjarlægist fallsvæðið

Southampton vann öruggan 3:0-sigur þegar liðið mættir Leicester City mætast í 22. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á St. Mary's í dag. Það voru James Ward-Prowse, Jay Rodriguez og Dusan Tadic sem skoruðu mörk Southampton í leiknum. 

James Ward-Prowse og Jay Rodriguez komu Southampton tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik og Dusan Tadic rak síðasta naglann í líkkistu Leicester City með marki sínu úr vítaspyrnu undir lok leiksins. 

Southampton hefur 27 stig eftir þennan sigur og situr í 11. sæti deildarinnar. Southampton er nú ellefu stigum frá fallsæti og getur andað léttar um stundarsakir hið minnsta. Leicester City er hins vegar í 15. sæti deildarinnar með 21 stig og er einungis fimm stigum frá fallsæti. 

Fari svo að Leicester City sogist enn frekar í fallbaráttuna og falli niður um deild í vor verður það í fyrsta skipti síðan árið 1936 sem ríkjandi meistari fellur úr efstu deild í knattspyrnu í Englandi. Það er Manchester City sem er eina liðið sem er þessa vafasaman heiðurs aðnjótandi. 

90. Leik lokið með 3:0-sigri Southampton. 

85. MAAARK. Southampton - Leicester City, 3:0. Dusan Tadic skorar af miklu öryggi úr vítaspyrnunni og gulltryggir sigur Southampton. Tadic skýtur föstu skoti sem hafnar ofarlega í markhorninu á marki Leicester City hægra megin séð frá honum. 

85. Wes Morgan, leikmaður Leicester City, er áminntur með gulu spjaldi fyrir að brjóta á Shane Long, leikmanni Southampton innan vítateigs Leicester City og Southamton fær vítaspyrnu.  

75. Wes Morgan, fyrirliði Leicester City, setur boltann í eigið net, en blessunarlega fyrir hann var aðstoðardómarinn búinn að lyfta flaggi sínu til merkis um rangstöðu og markið gildir því ekki. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn á St Mary's. 

45. Hálfleikur á St Mary's. Staðan er 2:0 fyrir Southampton í hálfleik, en það voru James Ward-Prowse og Jay Rodriguez sem skoruðu mörk heimamanna í fyrri hálfleiknum. 

39. MAAARK. Southampton - Leicester City, 2:0. Jay Rodriguez tvöfaldar forystu Southampton þegar hann smellhittir boltann á lofti eftir aukaspyrnu og hamrar boltanum efst í nærhornið. Kasper Schmeichel átti ekki möguleika á að verja þetta firnafasta skot Rodriguez. 

26. MAAARK. Southampton - Leicester City, 1:0. James Ward-Prowse kemur Southampton yfir þegar hann rekur smiðshöggið á laglega sókn heimamanna. Leikmenn Southampton léku boltanum laglega á milli sín á hægri vængnum og Cédric Soares sendi boltann á Ward-Prowse sem skoraði með góðu skoti sem Kasper Schmeichel var þó nálægt því að verja.   

1. Leikurinn er hafinn á St Mary's.

Byrjunarlið Southampton: Forster - Cédric, van Dijk, Yoshida, Bertrand - Romeu, Højbjerg, Ward-Prowse - Tadić, Redmond, Rodriguez.

Byrjunarlið Leicester City: Schmeichel - Simpson, Morgan, Huth, Fuchs - Ndidi, Mendy, Drinkwater - Gray, Okazaki, Vardy

0. Southampton er fyrir leik liðanna í 13. sæti deildarinnar með 24 stig, en Leicester City er hins vegar í 15. sæti deildarinnar með 21 stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert