Fimm á leið til Englands eftir tap meistaranna

Wilfried Bony, framherji Fílabeinsstrandarinnar, og Mbarek Boussoufa, varnarmaður Marokkó, í …
Wilfried Bony, framherji Fílabeinsstrandarinnar, og Mbarek Boussoufa, varnarmaður Marokkó, í leik liðanna í kvöld. AFP

Ríkjandi Afríkumeistarar karla í knattspyrnu, lið Fílabeinsstrandarinnar, er úr leik í Afríkukeppninni í Gabon eftir ósigur gegn Marokkó í kvöld, 0:1, en meistararnir fráfarandi unnu þar með ekki leik í riðlakeppninni.

Fílabeinsströndin var með tvö stig eftir tvo jafnteflisleiki en Marokkó var með 3 stig og því um hreinan úrslitaleik liðanna að ræða. Rachid Alioui skoraði markið með glæsilegu langskoti en Herve Renard, sem nú þjálfar Marokkó, stýrði Fílabeinsströndinni til sigurs á mótinu fyrir tveimur árum.

Þetta þýðir að fimm öflugir landsliðsmenn Fílabeinsstrandarinnar eru á leið til félaga sinna á Englandi, mun fyrr en reiknað var með.

Þetta eru Eric Bailly frá Manchester United, Wilfried Zaha frá Crystal Palace, Wilfried Bony frá Stoke, Lamine Koné frá Sunderland og Max Gradel frá Bournemouth. 

Tógó er líka úr leik eftir 1:3 tap gegn Lýðveldinu Kongó, sem þar með vann riðilinn með 7 stigum. Enginn leikmanna Tógó spilar í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert