Meira en tilbúinn að fara strax

Eggert Gunnþór Jónsson, til hægri, í leik með Fleetwood.
Eggert Gunnþór Jónsson, til hægri, í leik með Fleetwood. Ljósmynd/Fleetwoodtownfc.com

„Ég er ekki búinn að fá nógu mikið af tækifærum svo ég er farinn að hugsa mér til hreyfings,“ sagði Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Fleetwood á Englandi, í samtali við Morgunblaðið. Í gær bárust fréttir að norska úrvalsdeildarfélagið Viking hefði mikinn áhuga á því að fá Eskfirðinginn í sínar raðir, og hugsanlega strax í janúar.

Sjá frétt mbl.is: Við gætum stólað á Eggert

„Það er ekki komið á það stig að ég geti hugsað nánar út í það, ég er enn hjá Fleetwood. Það eru þreifingar hér og þar, en eins og er þá er ekkert haldbært í gangi. Það er vika eftir af þessum glugga svo það er spurning hvort eitthvað gerist,“ sagði Eggert, sem hefur ekki verið inni í myndinni hjá enska C-deildarliðinu síðustu vikur og mánuði.

Samningur hans rennur út í sumar og segir Eggert að miðað við stöðu hans nú væri hann alveg tilbúinn að skoða það að losna nú í janúar á meðan félagaskiptaglugginn er opinn í Evrópu.

„Já, það er alveg einn af möguleikunum. Ef eitthvað spennandi kemur upp þá er ég meira en tilbúinn til þess að skoða það. Staðan núna er þannig að ég er ekki að fá tækifæri hjá þessum þjálfara. Og á meðan það er þannig þá mundi ég ekki vilja vera áfram sjálfur í þessari stöðu.“

Nánar verður rætt við Eggert í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert