Fá 40 stig eins fljótt og mögulegt er

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að næstu sex leikir Swansea muni ráða framtíð liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Swansea hefur heldur betur sótt í sig veðrið eftir að Paul Clement tók við liðinu af Bob Bradley í byrjun ársins en eftir að hafa verið í fallsæti í nokkurn tíma er velska liðið í 15. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti.

„Nú er þetta undir okkur komið, hvernig við náum í stig í næstu leikjum verður mjög mikilvægt. Næstu sex leikir munu ráða því hvernig tímabilið fer. Við verðum að vera sterkir andlega og taka einn leik í einu. Þetta lítur miklu betur út núna heldur en fyrir fimm eða sex vikum síðan,“ segir Gylfi í viðtali við enska blaðið Mirror en hann hefur farið á kostum með Swansea á leiktíðinni, hefur skorað 8 mörk í deildinni og lagt upp 8 mörk.

„Við viljum fá 40 stig eins fljótt og mögulegt er en það er gott að hafa smá forskot á þrjú neðstu liðin,“ segir Gylfi, en Swansea hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni.

Swansea bíður afar erfiður leikur um næstu helgi en þá sækir það topplið Chelsea heim á Stamford Bridge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert