Nær Birkir að vinna fyrsta leikinn?

Birkir Bjarnason með Villa-treyjuna.
Birkir Bjarnason með Villa-treyjuna. Ljósmynd/Twitter

Það verður að teljast frekar ólíklegt að landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason fagni sigri í fyrsta sinn með Aston Villa í kvöld en þá sækir liðið Newcastle heim í ensku B-deildinni í knattspyrnu.

Birkir, sem gekk í raðir Aston Villa frá svissneska meistaraliðinu Basel í síðasta mánuði, hefur verið í tapliði í öllum fjórum leikjunum sem hann hefur spilað með Aston Villa en lærisveinum Steve Bruce hefur gengið afleitlega undanfarnar vikur.

Aston Villa er með lélegasta árangur allra liða í B-deildinni á árinu 2017 en Villa hefur aðeins náð að krækja í eitt stig frá áramótum og er í 17. sæti deildarinnar en því hefur ekki tekist að vinna leik í síðustu átta deildarleikjum sínum. Newcastle er hins vegar í öðru sæti og með sigri í kvöld kemst liðið á topp deildarinnar en liðið er tveimur stigum á eftir Brighton.

Birkir var í byrjunarliði Aston Villa í fyrstu þremur leikjum sínum en kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Barnsley í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert