„Er enginn kraftaverkamaður“

Paul Clement.
Paul Clement. AFP

„Ég er enginn kraftaverkamaður,“ segir Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea City, en frá því hann tók við velska liðinu í byrjun árs hefur gengi liðsins tekið stakkaskiptum.

„Við erum að vinna hörðum höndum í að bæta okkar leik og halda áfram því sem við höfum verið að gera í síðustu leikjum. Við gerðum góða hluti í útileikjum okkar á móti Liverpool og Manchester City og við mætum í leikinn á móti Chelsea með sama hugarfari,“ segir Clement en Swansea hefur unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Swansea á erfitt verk fyrir höndum en liðið sækir meistaraefnin í Chelsea heim um næstu helgi en Clement hóf þjálfaraferil sinn hjá Lundúnaliðinu og var aðstoðarmaður Carlo Ancelotti hjá Chelsea-liðinu árið 2011.

„Þetta verður í fyrsta skipti sem ég fer á Stamford Bridge frá því ég fór frá liðinu 2011. Þetta verður stór dagur fyrir okkur alla og þar á meðal mig. Chelsea er félag sem ég hef haft góð tengsl við. Ég byrjaði minn feril þar árið 1995 og hef verið við störf hjá félaginu í tvígang,“ segir Clement.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert