Hörð refsing fyrir bökuátið á bekknum?

Shaw að úða í sig bökunni á hliðarlínunni í gærkvöld.
Shaw að úða í sig bökunni á hliðarlínunni í gærkvöld. Ljósmynd/twitter

Wayne Shaw, hinn 45 ára gamli varamarkvörður enska utandeildaliðsins Sutton United, fékk sér böku á bekknum í miðjum leik liðsins gegn Arsenal í 16-liða úrslitum enska FA-bikarsins í gær. Það gæti komið honum í koll eftir því sem Guardian greinir frá.

Shaw, sem er 127 kíló og er bæði varamarkvörður og starfsmaður vallarins, mun sæta rannsókn þess efnis að hann hafi brotið gegn veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins. Er hann talinn hafa vitað af því að veðjað var á að hann myndi fá sér bita af böku á bekknum.

„Það voru 8-1 líkur á því að ég myndi borða böku. Ég hafði ekkert borðað yfir daginn og hélt að þetta yrði bara fyndið að láta verða af þessu. Allir varamennirnir voru komnir inn á og við vorum að tapa 2:0,“ sagði Shaw um bökuátið.

Reglur knattspyrnusambandsins segja greinilega að leikmönnum er að veðja, beint eða óbeint, á nokkuð sem viðkemur leikjum á vegum sambandsins. Forráðamenn Sutton hafa sagt að þeir munu einnig ræða við Shaw og koma honum aftur niður á jörðina eftir að hafa vakið heimsathygli með bökuátinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert