„Þið verðið að spyrja hann“

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir ekki öruggt að Wayne Rooney verði í herbúðum Manchester United út leiktíðina.

Rooney hefur verið sterklega orðaður við Kína en félög þar í landi hafa óskað eftir kröftum enska landsliðsfyrirliðans. Félagaskiptaglugginn í Kína er opinn til mánaðamóta og því getur Rooney farið ef svo ber undir.

„Þið verðið að spyrja hann,“ sagði Mourinho á fréttamannafundi í Saint-Étienne í dag en United mætir franska liðinu í síðari viðureign liðanna í Evrópudeildinni á morgun.

„Ég get ekki ábyrgst að ég verði hjá félaginu í næstu viku svo hvernig get ég tryggt að leikmaður verði ekki hér á næsta tímabili? Það sem ég get ábyrgst er að ef Rooney fer frá United þá er það ekki vegna þess að ég vilji að hann yfirgefi liðið. Það eina sem ég get ábyrgst er að ég myndi aldrei ýta, eða reyna að ýta, goðsögn klúbbsins til annars áfangastaðar,“ sagði Mourinho.

Rooney er að skríða saman eftir að hafa verið frá vegna meiðsla í síðustu leikjum United en að sögn Mourinho er hann ekki í nægilega góðu standi til að spila á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert