Gerði stuðningsmenn United bálreiða

Eric Cantona
Eric Cantona AFP

Franska knattspyrnugoðsögnin Eric Cantona gerði stuðningsmenn síns fyrrverandi félags, Manchester United, bálreiða er hann svaraði spurningunni um hver yrði fyrir valinu sem besti samherji Frakkans á ferlinum.

Cantona var staddur í Bournemouth þar sem sá franski seldi inn á sýningu sína: „Kvöld með Cantona“.

Einhverjir kölluðu inn á svið nöfn leikmanna á borð við Ryan Giggs, Roy Keane og Paul Scholes. Það var hins vegar Skotinn Gary McAllister, goðsögn hjá erkifjendunum í Liverpool sem varð fyrir valinu.

Þeir McAllister og Cantona léku saman með Leeds tímabilið 1991-92 þar sem þeir unnu enska meistaratitilinn undir stjórn Howards Wilkinson. Eftir það gekk McAllister í raðir Coventry áður en hann skrifaði undir hjá Liverpool á frjálsri sölu 35 ára gamall árið 2000 en tímabilið 2000-01 vann McAllister þrefalt með liðinu.

Cantona lék með Manchester United frá 1992-97, spilaði 143 leiki og skoraði í þeim 64 mörk, og vann deildina fjórum sinnum og deildabikarinn og enska bikarinn tvívegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert