Hafnaði Liverpool vegna reynsluleysis

Frank de Boer.
Frank de Boer. AFP

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Frank de Boer segir að sér hafi verið sýndur mikill heiður er honum var boðið stjórastarf Liverpoool árið 2012. Hann hafnaði því tilboði hins vegar og í samtali við Daily Mail í dag útskýrir hann hvers vegna.

„Ég sagði við Liverpool að mér þætti þetta vera mikill heiður. En ég var aðeins búinn að vera í eitt ár hjá Ajax. Ég þurfti að afreka meira, sem ég og gerði,“ sagði de Boer en hann vann í stjóratíð sinni hjá Ajax fjóra deildartitla en undir hans sjórn lék meðal annars Kolbeinn Sigþórsson. De Boer var á móti rekinn eftir aðeins 85 daga í starfi sem stjóri Inter á Ítalíu.

De Boer var boðið Liverpool-starfið eftir að félagið lét Kenny Dalglish róa en Brendan Rodgers tók á endanum við liðinu í það skiptið.

De Boer er spenntur fyrir ensku deildinni í dag. „Ég er mjög áhugasamur um að stýra liði hér. En það þarf að vera rétta verkefnið,“ sagði de Boer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert