„Í gær dó draumur minn“

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

„Í gær dó draumur minn,“ segir Claudio Ranieri í yfirlýsingu sem hann birti nú síðdegis en honum var í gær vikið frá störfum sem knattspyrnustjóri Leicester City.

„Eftir glæsilegt tímabil í fyrra þar sem við vorum krýndir Englandsmeistarar dreymdi mig um að vera áfram hjá Leicester City, félaginu sem ég elska og mun alltaf gera. Því miður verður það ekki. Ég vil þakka eiginkonu minni, Rosanna, og allri fjölskyldu minni fyrir endalausan stuðning þann tíma sem ég var hjá félaginu. Ég þakka Paolo og Andrea sem fylgdu mér á þessari yndislegu ferð og ég þakka Steve Kutner og Franco Granello fyrir að færa mér tækifæri til að verða meistari.

Mest af öllu þakka ég Leicester City. Ævintýrið var ótrúlegt og mun lifa með mér að eilífu. Ég sendir þakkir til blaðamanna og fréttamanna sem fylgdu okkur og nutu þess að fjalla um mögnuðustu sögu fótboltans. Innilegar þakkir til allra hjá félaginu, til leikmanna, starfsfólks, allra sem voru hjá félaginu og voru hluti af því sem við afrekuðum. Og síðan en ekki síst þakka ég frábærum stuðningsmönnum. Þið tókuð mig inn í hjörtu ykkar frá fyrsta degi og elskuðuð mig. Ég elska ykkur líka. Það hefur verið ánægjulegt og mikill heiður að verða meistari með ykkur öllum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá Ranieri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert