Watford og West Ham skildu jöfn

Troy Deeney kom Watford yfir gegn West Ham United í …
Troy Deeney kom Watford yfir gegn West Ham United í leik liðanna í dag. AFP

Watford og West Ham United gerðu 1:1-jafntefli þegar liðin mættust í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Vicarage Road í dag.

Watford hóf leikinn af miklum krafti, en Troy Deeney kom heimamönnum yfir strax á þriðju mínútu leiksins með marki úr vítaspyrnu. 

Andre Ayew, sem kom inn á sem varamaður fyrir West Ham United í upphafi seinni hálfleiks, jafnaði metin um miðbik seinni hálfleiks þegar hann fylgdi eftir skoti Michail Antonio sem hafnaði í báðum stöngunum á marki Watford og skoraði með skoti í autt markið af stuttu færi.

Watford lék einum leikmanni fleiri eftir að Michail Antonio, leikmaður West Ham United, var áminntur með gulu spjaldi öðru sinni og þar með vísað af velli með rauðu spjaldi. Heimamenn náðu hins vegar ekki að nýta sér liðsmuninn og jafntefli staðreynd.

Liðin sigla bæði lygnan sjó um miðja deild, en West Ham United er í níunda sæti deildarinnar með 33 stig og Watford er í 12. sæti deildarinnar með 31 stig. 

90. Leik lokið með 1:1-jafntefli. 

86. Michail Antonio, leikmaður West Ham United, er áminntur með gulu spjaldi í annað skipti í þessum leik og er þar af leiðandi vísað af velli með rauðu spjaldi. 

74. MAAARK. Watford – West Ham United, 1:1. Andre Ayew sem kom inn á fyrir West Ham United fyrir skömmu síðan jafnar metin fyrir gestina. Ayew bindur endahnútinn á vel útfærða skyndisókn þegar hann fylgir eftir skoti Michail Antonio sem hafnaði í báðum stöngunum á marki Watford og kemur boltanum í mark Watford. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn á Vicarage Road. 

45. Hálfleikur á Vicarage Road. Staðan er 1:0 fyrir Watford í hálfleik, en það var Troy Deeney sem skoraði mark Watford úr vítaspyrnu. 

3. MAAARK. Watford – West Ham United, 1:0. Leikurinn byrjar með látum á Vicarage Road, en Troy Deeney kemur heimamönnum, Watford, yfir með marki strax á þriðju mínútu leiksins úr vítaspyrnu. Vítaspyrnan var dæmd á Cheikhou Kouyate fyrir að fella Mauro Zarate. Deeney skoraði af feykilegu öryggi úr vítaspyrnunni. 

1. Leikurinn er hafinn á Vicarage Road. 

Byrjunarlið Watford: Gomes - Janmaat, Kaboul, Britos, Holebas - Capoue, Behrami, Cleverley - Niang, Deeney, Zarate.

Byrjunarlið West Ham United: Randolph - Kouyate, Fonte, Reid,  Cresswell - Noble, Obiang - Feghouli, Snodgrass, Lanzini - Antonio.

0. West Ham United er fyrir leik liðanna í 10. sæti deildarinnar með 32 stig á meðan Watford er í 13. sæti deildarinnar með 30 stig. 

Sofiane Feghouli og félagar hans hjá West Ham United sækja …
Sofiane Feghouli og félagar hans hjá West Ham United sækja Watford heim í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert