„Bikar númer 32 hjá mér held ég“

Zlatan Ibrahimovic fagnar fyrra marki sínu.
Zlatan Ibrahimovic fagnar fyrra marki sínu. AFP

Svíinn Zlatan Ibrahimovic fór að vanda á kostum í viðtali eftir að hafa tryggt Manchester United sigurinn í enska deildabikarnum í knattspyrnu, en United vann Southampton 3:2 í mögnuðum úrslitaleik þar sem Zlatan skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok.

„Þetta er liðssigur,” sagði Zlatan hógvær en fór síðan í gang. „Þetta er ástæðan fyrir því að ég kom hingað. Því meira sem ég vinn, þeim mun ánægðari verð ég,” sagði Zlatan Ibrahimovic.

„Maður lærir að meta þetta betur eftir því sem maður eldist. Hvert sem ég fer vinn ég. Ég held að þetta sé bikar númer 32 hjá mér,” sagði Zlatan kokhraustur. Hann á það líklega inni eftir að hafa skorað tvö mörk í úrslitaleiknum og verið valinn maður leiksins.

„Ég spáði þessu. Margir héldu að ég gæti þetta ekki, en vinur, ég held bara áfram. Ég nýt þess að vera á Englandi,” sagði Zlatan Ibrahimovic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert