Kemst Liverpool í þriðja sætið?

Sadio Mané er búinn að skora 11 mörk í deildinni …
Sadio Mané er búinn að skora 11 mörk í deildinni fyrir Liverpool. AFP

Afar athyglisverður leikur fer fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld en þá taka Englandsmeistarar Leicester City á móti Liverpool á Kig Power-vellinum í Leicester.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt urðu stórtíðindi í herbúðum Leicester fyrir helgina þegar knattspyrnustjórinn Claudio Ranieri var rekinn frá störfum og það kemur í hlut Craig Shakespeare aðstoðarstjóra félagsins að stýra liðinu í kvöld en eftir úrslitin um helgina er Leicester komið í fallsæti.

Með sigri kemst Liverpool upp fyrir Arsenal og Manchester City í þriðja sæti deildarinnar en liðið yrði þá stigi á eftir Tottenham. Liverpool hafði betur í fyrri viðureign liðanna í september, 4:1, en Leicester fagnaði 2:0 sigri þegar þau áttust við á King Power-vellinum á síðustu leiktíð.

Leicester hefur tapað fimm leikjum í röð í deildinni og er eina liðið í fimm efstu deildunum á Englandi sem ekki hefur skorað mark í deildarkeppninni á árinu 2017 en Leicester hefur ekki náð að skora í síðustu sex leikjum sínum í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert