„Liverpool á að kaupa Hart“

Joe Hart.
Joe Hart. AFP

Ray Wilkins, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að Liverpool eigi að kaupa enska landsliðsmarkvörðinn Joe Hart í sumar.

Hart er samningsbundinn Manchester City en var lánaður til ítalska A-deildarliðsins Torino fyrir tímabilið. Hart á að snúa aftur til City eftir leiktíðina en hann virðist ekki vera inni í framtíðarplönum Pep Guardiola og kemur til með að leita sér að nýju liði.

„Ef ég væri Klopp myndi ég klárlega falast eftir honum. Hann er hæfileikaríkur ungur maður sem ég vil sjá aftur spila í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Wilkins við Sky Sports en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, reyndi að fá Hart í sínar raðir fyrir tímabilið.

Fyrir í markvarðarstöðunum hjá Liverpool eru Belginn Simon Mignolet og Þjóðverjinn Loris Karius. Mignolet hefur varið mark Liverpool-liðsins undanfarna mánuði eftir að hafa misst sæti sitt um tíma en bæði hann og Karius hafa mátt sæta gagnrýni fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert