„Þetta var sjokk“

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

Claudio Ranieri fyrrum knattspyrnustjóri Leicester City segir að það hafi verið mikið sjokk fyrir sig þegar hann var rekinn úr starfi frá félaginu.

Ranieri var leystur frá störfum hjá Leicester í síðasta mánuði, níu mánuðum eftir að hafa gert liðið að Englandsmeisturum.

„Það fyrsta sem kom upp í hugann var að þetta kom mér á óvart frekar heldur en biturð. Þetta var sjokk en á endanum er þetta hluti af fótboltanum,“ sagði Ranieri í viðtali við ítalska blaðið Gazzetta dello Sport en Ranieri hefur ekki áður tjáð sig um brottreksturinn.

Ranieri segir við ítalska blaðið að hann muni ræða frekar um viðskilnað sinn við Leicester þegar hann verður gestur hjá Sky Sports fyrir leik Crystal Palace og Arsenal þann 10. apríl.

„Fram að þessu degi þá mun ég ekki ræða þetta. Þar sem þetta fór allt fram á Englandi er við hæfi að ræða málin þar,“ sagði Ítalinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert