Sigurliðið kemst í Meistaradeildina

Ander Herrera.
Ander Herrera. AFP

Ander Herrera miðvallarleikmaður Manchester United segir að liðið sem hafi betur í rimmu Manchester City og United á fimmtudaginn muni enda á meðal á fjögurra efstu liða í deildinni og tryggja sér sæti í Meistaradeildinni.

„Þetta verður leikur tímabilsins. Við erum stigi á eftir þeim og ef við vinnum þá eigum við góða möguleika að enda á meðal fjögurra efstu. Ef City vinnur þá verður þetta mjög erfitt,“ segir Herrera á vef Independent.

Manchester City hefur 64 stig í fjórða sæti deildarinnar en United, sem hefur ekki tapað síðustu 23 leikjum sínum í deildinni, er með 63 stig í fimmta sætinu.

„Við erum í góðum gír um þessar mundir. Við berum virðingu fyrir City en við höfum verið að gera góða hluti og þurfum að gera það á fimmtudaginn,“ segir Spánverjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert