Pogba missir af Manchester-slagnum

Paul Pogba meiddist hér gegn Burnley og gat ekki haldið …
Paul Pogba meiddist hér gegn Burnley og gat ekki haldið áfram leik. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti á fréttamannafundi í dag að miðjumaðurinn Paul Pogba verði ekki með í grannaslagnum við Manchester City í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

Pogba haltraði af velli í síðasta leik gegn Burnley og verður ekki orðinn klár í slaginn. Antonio Valencia ætti hins vegar að vera tilbúinn til leiks á ný.

Aðeins einu stigi munar á liðunum, City er í 4. sætinu með 64 stig en United í því 5. með 64 stig. Mourinho sagði jafnframt að það skipti hann engu máli þótt United endi fyrir ofan City ef liðið kemst ekki í Meistaradeildina.

Þá sagðist hann vona að Zlatan Ibrahimovic myndi íhuga vandlega næstu skref, hvort sem hann yrði áfram á Old Trafford eða ekki. Zlatan verður meiddur fram á næsta ár og Mourinho sagðist ánægður að heyra að hann ætlaði sér að snúa til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert