Mourinho skýtur á Louis van Gaal

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, telur að leikmenn liðsins hafi skort gleði, traust og trú í leik sínum þegar liðið lék undir stjórn Louis van Gaal. Mourinho telur að liðið verði hungraðra í árangur á næsta keppnistímabili. 

Manchester United mætir Swansea á Old Trafford á morgun, en liðið hefur ekki beðið ósigur í síðustu 24 leikjum sínum. Manchester United er í harðri baráttu um að hafna í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar, en liðið er í fimmta sæti deildarinnar með 64 stig og er einu stigi á eftir Manchester City sem er sæti ofar.

„Louis van Gaal skildi eftir sig lið sem skipað var hæfileikaríkum, viljugum og vel samsettum leikmannhópi. Leikmenn voru í góðu sambandi hver við annan og mitt verkefni var aðallega að berja í þá gleði, kjark og trú," sagði Mourinho á blaðamannafundi í gær.

„Ég tel liðið vera betur í stakk búið til þess að berjast af fullum krafti um alla þá titla sem í boði eru á næstu leiktíð. Nýir leikmenn munu koma inn í umhverfi þar sem leikmenn hafa trú á sjálfum sér og getu leikmannahópsins til þess að gera góða hluti,“ sagði Mourinho enn fremur.

„Núna erum við hins vegar að einbeita okkur að baráttunni um efstu fjögur sætin í deildinni og handan við hornið eru svo undanúrslitin í Evrópudeildinni. Við erum klárir í þau verkefni sem framundan eru,“ sagði Mourinho um framhaldið.

Mourinho tilkynnti að Phil Jones, Chris Smalling, Marcos Rojo, Juan Mata og Paul Pogba væru á meiðslalistanum og yrðu fjarri góðu gamni þegar liðið mætir Swansea City á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert