Sunderland fallið úr efstu deild

Bournemouth og Leicester City fóru langt með að tryggja veru sína í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á næstu leiktíð með sigri í leikjum sínum í dag.

Joshua King tryggði Bournemouth sigur gegn Sunderland sem er fallið úr deildinni. Jamie Vardy sá svo til þess að Leicester City nældi í þrjú stig í leik liðsins gegn West Bromwich Albion.

Þá gerðu Southampton og Hull City og Stoke City og West Ham United markalaust jafntefli í leikjum sínum. West Bromwich Albion er í áttunda sæti deildarinnar með 44 stig og Southampton er sæti neðar með 41 stig.

Svissneski markvörðurinn Eldin Jakupovic var hetja Hull City, en hann varði vítaspyrnu serbneska framherjans Dusan Tadic og sá til þess að Hull City náði í eitt stig í baráttu sinnium að forðast fall úr deildinni.  

Bournemouth er í 10. sæti deildarinnar með 41 stig og Leicester City og Stoke City eru í sætunum þar fyrir neðan með einu stigi minna. Bournemouth er 10 stigum frá falli eftir sigurinn í dag og Leicester City og Stoke City eru níu stigum frá fallsæti.

West Ham United þokaðist frá fallsvæðinu með stiginu sem liðið innbyrti í dag, en liðið er í 14. sæti deildarinnar með 39 stig og er átta stigum frá fallsæti. Hull City er svo í 17. sæti deildarinnar með 34 stig og er einu sæti fyrir ofan fallsæti.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans hjá Swansea City sem sitja í efsta fallsætinu með 31 stig eiga einn leik til góða á Hull City. Swansea City getur jafnað Hull City að stigum með sigri þegar liðið leikur við Manchester United á morgun.   

Úrslit í leikjum dagsins urðu eftirfarandi:

Southampton - Hull, 0:0
Stoke City - West Ham United, 0:0
Sunderland - Bournemouth, 0:1
Joshua King 88.
West Bromwich Albion - Leicester City, 0:1
Jamie Vardy 43.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert