Tap í fyrsta leik í Varsjá

Kvennalandsliðið í blaki.
Kvennalandsliðið í blaki. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Íslenska kvennalandsliðið í blaki tapaði fyrsta leik sínum í annarri umferð heimsmeistaramótsins sem fram fer í Varsjá í Póllandi í dag. Ísland tapaði þá fyrir Serbíu í þremur hrinum, 3:0.

Eins og búast má við á þessu stigi heimsmeistaramótsins átti íslenska liðið erfitt uppdráttar og tapaði fyrstu hrinu 25:13. Íslenska liðið stóð í Serbunum í upphafi annarrar hrinu en tapaði henni að lokum 25:15. Þriðja hrina var hins vegar erfið og hana unnu Serbar 25:9 og leikinn 3:0.

Stigahæstar í íslenska liðinu voru Elísabet Einarsdóttir og fyrirliðinn Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 7 stig. Fyrir leikinn fékk Fríða Sigurðardóttir viðurkenningu fyrir 100 landsleiki og er hún leikjahæsta landsliðskona frá upphafi. 

Ísland mætir Póllandi strax á morgun, Tékklandi á fimmtudag, Kýpur á laugardag og Slóvakíu á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert