Æfðum og æfðum og æfðum vítaspyrnur

Julian Pollersbeck varði tvær vítaspyrnur fyrir Þýskaland.
Julian Pollersbeck varði tvær vítaspyrnur fyrir Þýskaland. AFP

Englendingar eru orðnir ansi vanir því að tapa vítaspyrnukeppni í fótbolta en England féll úr leik gegn Þýskalandi eftir vítaspyrnukeppni í undanúrslitum EM U21 karla í gær.

Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en Þýskaland vann 4:3 í vítaspyrnukeppninni þar sem markvörður Þýskalands varði spyrnur Tammy Abraham og Nathan Redmond.

„Við höfum æft og æft og æft vítaspyrnur,“ sagði Aidy Boothroyd, þjálfari enska liðsins.

BBC bendir á að A-landslið Englands hafi tapað sex af sjö vítaspyrnukeppnum sínum á stórmótum. Í tvö þessara skipta var einnig um undanúrslitaleik gegn Þýskalandi að ræða; á HM 1990 og EM 1996.

Fyrr í sumar tapaði England gegn Spáni í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik EM U17-landsliða.

Aðspurður hvers vegna Englandi gengi svona illa í vítaspyrnukeppnum svaraði Boothroyd:

„Ég hef ekki hugmynd. Við höfum farið yfir allt í sambandi við vítaspyrnur. Þegar upp er staðið átti markvörður þeirra tvær góðar markvörslur gegn leikmönnum sem gætu vanalega skorað með lokuð augu,“ sagði Boothroyd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert