Morata stóðst læknisskoðun

Alvaro Morata.
Alvaro Morata. AFP

Spænski framherjinn Alvaro Morata stóðst í dag læknisskoðun hjá Chelsea. Þetta hefur Sky Sports eftir heimildamönnum sínum.

Morata gengur í raðir félagsins frá Real Madrid á 58 milljónir punda.

Búist er við því að Morata hitti fyrir liðsfélaga sína hjá Chelsea sem staddir eru í Singapúr í æfingaferð.

„Þetta er besta félagið. Antonio Conte er einn besti þjálfari í heimi. Ég er ótrúlega ánægður að fá að vinna með honum,“ var haft eftir Morata.

Morata skoraði 20 mörk í 32 leikjum fyrir Madrid á síðustu leiktíð en hann lék þar áður með Juventus. Í fyrra vann hann spænsku deildina og Meistaradeild Evrópu.

Hann er fjórðu kaup Chelsea í sumar en áður hefur Chelsea samið við Willy Caballero, Antonio Rudiger og Tiemoue Bakayoko.

Conte hefur viljað styrkja sóknarlínu sína í sumar en hann sagði snemmsumars að Diego Costa ætti ekki framtíð hjá félaginu. Auk þess missti Chelsea af Romelu Lukaku til Manchester United.

Costa ferðaðist ekki með Chelsea til Singapúr og hefur verið orðaður við fyrrverandi félag sitt, Atlético Madrid, en liðið er reyndar í félagaskiptabanni þar til í janúar. Það virðist þó ekki stoppa för hans þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert