Gylfi kominn í bláu treyjuna

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Þór Sigurðsson hefur staðist læknisskoðun hjá Everton og verður að öllum líkindum kynntur sem leikmaður liðsins í dag ef allt gengur eftir. Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, staðfesti þetta á fréttamannafundi Everton nú rétt í þessu.

„Það voru engin vandræði með læknisskoðunina í morgun og ég sá hann í bláu treyjunni áðan,“ sagði Koeman, en ekki er búið að ganga endanlega frá kaupunum.

„Það er komið samkomulag, en ég veit ekki hvort pappírsvinnan sé búin,“ sagði Koeman, og talaði afar vel um Gylfa.

„Við höfum unnið lengi að því að ná þessum kaupum í gegn og hann var einn af lykilmönnunum sem ég vildi fá. Ég vissi að eftir að við seldum [Romelu] Lukaku þá þyrftum við að fá fleiri skapandi leikmenn inn. Hann er að mínu mati einn besti leikmaður deildarinnar. Hann þekkir deildina vel og átti frábært tímabil með Swansea,“ sagði Koeman.

Hann staðfesti að Gylfi verði ekki í hópnum í Evrópuleik gegn Hajduk Split á morgun en næsti leikur Everton er á mánudag gegn Manchester City.

„Ég mun tala við Gylfa núna seinni partinn. Hann æfði ekki í dag og verður ekki í liðinu í leiknum á morgun. Ég mun þurfa að tala við hann, ég veit ekki hvernig líkamlegt ástand hans er,“ sagði Koeman.

Fundinn og beina lýsingu má sjá hér að neðan:

Fréttamannafundur Everton opna loka
kl. 13:20 Textalýsing Útsendingin frá fundinum endaði snögglega og virðist hann því vera búinn. Koeman var farinn að svara nánast eingöngu spurningum um leikinn á morgun, þar sem Gylfi verður ekki með. En hann hefur staðist læknisskoðun og nú þarf að ganga frá síðustu lausu endunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert