Gylfi orðinn leikmaður Everton

Gylfi Þór Sigurðsson í nýju treyjunni.
Gylfi Þór Sigurðsson í nýju treyjunni. Ljósmynd/Heimasíða Everton

Gylfi Þór Sigurðsson skrifaði í dag undir samning við Everton og gildir samningurinn til næstu fimm ára. Everton keypti Gylfa frá Swansea og mun kaupverðið nema um 45 milljónum punda, jafnvirði 6,3 milljarða króna.

Gylfi, sem verður 28 ára í næsta mánuði, hefur leikið með Swansea frá árinu 2014. Hann skilur við Swansea sem markahæsti leikmaður í sögu félagsins í efstu deild með 34 mörk, og stoðsendingahæstur með 29 stoðsendingar. Gylfi átti afar stóran þátt í að halda Swansea í efstu deild á síðustu leiktíð, meðal annars með því að skora 9 mörk og leggja upp 13 til viðbótar.

Everton verður þriðja liðið sem Gylfi leikur með í ensku úrvalsdeildinni en hann var keyptur til Swansea frá Tottenham sumarið 2014. Gylfi hóf ferilinn í enska boltanum sem leikmaður Reading og lék einnig sem lánsmaður hjá Shrewsbury og Crewe, og hann var hjá Hoffenheim í Þýskalandi á árunum 2010-2012.

Næsti leikur Everton er annað kvöld gegn Hajduk Split í umspili um sæti í Evrópudeildinni, en liðið sækir svo Manchester City heim næsta mánudagskvöld. Everton vann Stoke 1:0 í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi, þar sem Wayne Rooney skoraði eina markið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert