Newcastle kaupir framherja

Joselu í búningi Newcastle.
Joselu í búningi Newcastle. Ljósmynd/Newcastle

Newcastle United, sem eru nýliðar í ensku úrvalsdeildinni í vetur, gengu í morgun formlega frá kaupum á spænska framherjanum Joselu og skrifaði hann undir þriggja ára samning við félagið.

Joselu kemur til Newcastle frá Stoke og er kaupverðið sagt vera um fimm milljónir punda. Það er svipað verð og Stoke borgaði fyrir hann frá Hannover í Þýskalandi fyrir tveimur árum, en hann átti erfitt uppdráttar hjá liðinu og var lánaður til Deportivo á Spáni í fyrra. Þar skoraði hann fimm mörk í 20 leikjum í spænsku 1. deildinni.

Joselu er 27 ára gamall og var á sínum tíma á mála hjá Real Madrid. Hann raðaði inn mörkunum fyrir B-lið félagsins og skoraði svo í eina leiknum sem hann spilaði með aðalliðinu í deildinni.

Á sama tíma gekk Stoke frá lánssamningi á framherjanum Jese Rodríguez sem gildir út tímabilið, en hann kemur frá París SG. Hann er 24 ára gamall og var einnig ungur á mála hjá Real Madrid, en hefur lítið fengið að spila með Parísarliðinu frá komunni þangað í fyrra en hann var þá keyptur á 25 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert