Viðurkennir að segja ekki satt um Coutinho

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að staðan varðandi brasilíska sóknarmanninn Philippe Coutinho sé afar flókin. Hann hefur verið sagður meiddur, en óvissa um framtíð hans er meira í sviðsljósinu.

„Þegar ég hef talað við læknateymið um stöðuna á Coutinho þá eru engar athugasemdir. Þetta er mjög erfið staða, það er ekki alltaf auðvelt að segja 100% sannleikann,“ viðurkenndi Klopp á fréttamannafundi í dag og ýtir undir þær fregnir að hann sé heill heilsu en vilji ekki spila.

Forráðamenn Barcelona hafa látið hafa eftir sér að félagið sé mjög nálægt því að klófesta Coutinho.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja við því. Ég veit ekki af hverju einhver myndi tala svona,“ sagði Klopp og gerði lítið úr því. En um möguleg kaup félagsins sagði hann:

„Allur markaðurinn er mjög erfiður. Þegar ég er ekki á vellinum eða að hugsa um æfingar, þá hugsa ég hvað við getum gert. Liðið er mjög gott þessa stundina en við munum sjá hvernig fer,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert