Vissi fyrir sumarið að Gylfi myndi fara

Gylfi Þór Sigurðsson skrifar undir í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson skrifar undir í gær. Ljósmynd/Everton

Gylfi Þór Sigurðsson tjáði Swansea að hann vildi yfirgefa félagið um leið og síðustu leiktíð lauk, en þetta segir Paul Clement, knattspyrnustjóri liðsins. Gylfi gekk í raðir Everton í gær eftir að félagið keypti hann á 45 milljónir punda. 

„Ég lét Gylfa vita að ég vildi halda honum þegar síðustu leiktíð lauk en hann svaraði að hann vildi prófa eitthvað nýtt. Ég vissi að hann vildi fara þegar síðustu leiktíð lauk en ég vonaðist alltaf til að hann myndi skipta um skoðun,“ sagði Clement við enska fjölmiðla í dag. 

Gylfi fór ekki með Swansea í æfingaferð til Bandaríkjanna í sumar, þar sem hann vildi klára félagaskiptin sín til Everton. 

„Ég sagði við Gylfa að ég vildi fá hann með til Bandaríkjanna en hann ákvað að koma ekki með. Þetta tók lengri tíma en við vildum, enda eru svona félagaskipti flókin. Hann æfði með okkur eftir ferðina og hann lagði meira á sig en aðrir á þeim æfingum, það sýnir hversu mikill fagmaður hann er,“ sagði Clement að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert