Jafnt í Manchester í fyrsta leik Gylfa

Gylfi Þór býr sig undir að taka aukaspyrnu í kvöld.
Gylfi Þór býr sig undir að taka aukaspyrnu í kvöld. AFP

Manchester City og Everton gerðu 1:1-jafntefli á Etihad-vellinum í Manchester í kvöld í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Gylfi Þór Sigurðsson byrjaði á varamannabekk Everton en hann kom inn á eftir rúmlega klukkutíma leik og lék sinn fyrsta leik fyrir liðið. 

Wayne Rooney kom Everton yfir á 35. mínútu með skoti af stuttu færi eftir góðan undirbúning Dominic Calvert-Lewin. Kyle Walker, sem var að leika sinn fyrsta heimaleik fyrir Manchester City, fékk tvö gul spjöld undir lok fyrri hálfleiks og þar með rautt og lék City því allan síðari hálfleikin manni færri. 

Þrátt fyrir það voru það lærisveinar Pep Guardiola í Manchester City sem höfðu undirtökin. Innkoma Gylfa var ekki nóg til að breyta því og verðskuldað jöfnunarmark kom á 82. mínútu er Raheem Sterling hamraði boltanum í bláhornið í miðjum vítateignum. 

Morgan Schneiderlin fékk svo sitt annað gula spjald undir lokin og voru bæði lið því með tíu leikmenn á lokakaflanum. Ekkert meira var skorað og skipta liðin því stigunum á milli sín.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Man. City 1:1 Everton opna loka
90. mín. Muhamed Bešić (Everton) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert