Gylfi sá síðasti sem fann netmöskvana

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson AFP

Ronald Koeman knattspyrnustjóri Everton vonast til þess að lið sitt komist á sigurbrautina aftur á morgun þegar liðið tekur á móti B-deildarliðinu Sunderland í ensku deildabikarkeppninni.

Everton, með Gylfa Þór Sigurðsson innanborðs, hefur tapað fjórum leikjum í röð án þess að skora mark. Gylfi var sá síðasti til að finna netmöskvana en það gerði hann með glæsilegu marki í 1:1-jafntefli gegn Hajduk Split í síðari viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar 24. ágúst.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að snúa þessari þróun við. Fram undan eru fjórir heimaleikir í röð í mismunandi keppnum og við þurfum að fá sigurtilfinninguna og bæta sjálfstraustið í liðinu með því að vinna,“ segir Koeman, sem mun örugglega gera einhverjar breytingar á liði sínu fyrir leikinn gegn Sunderland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert