Íslendingar í eldlínunni gegn úrvalsdeildarliðum

Jón Daði Böðvarsson og félagar mæta Swansea.
Jón Daði Böðvarsson og félagar mæta Swansea. Ljósmynd/readingfc.co.uk

Þriðja umferð enska deildabikarsins í knattspyrnu hefst í kvöld með ellefu leikjum þar sem þrír úrvalsdeildarslagir eru á dagskránni ásamt leikjum nokkurra Íslendingaliða.

Liverpool heimsækir Leicester, Bournemouth og Brighton eigast við og Crystal Palace mætir Huddersfield, en af öðrum úrvalsdeildarliðum má nefna að Tottenham mætir Barnsley. Þá munu tvö Íslendingalið í B-deildinni mæta úrvalsdeildarliðum.

Hörður Björgvin Magnússon og lið hans Bristol City fær Stoke í heimsókn en Jón Daði Böðvarsson og Axel Óskar Andrésson hjá Reading mæta Swansea. Þá mætir Aston Villa, lið Birkis Bjarnasonar, Middlesbrough.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í úrvalsdeildarliði Burnley fá Leeds í heimsókn, en á morgun lýkur svo þriðju umferðinni með fimm leikjum þar sem Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton mæta Sunderland svo eitthvað sé nefnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert