Mourinho krefst þess að halda Fellaini

Marouane Fellaini.
Marouane Fellaini. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur farið þess á leit við forráðamenn félagsins að þeir reyni að framlengja samninginn við belgíska miðjumanninn Marouane Fellaini sem allra fyrst.

Núgildandi samningur Fellaini rennur út eftir tímabilið og ef hann hefur ekki samið á ný um áramót getur hann farið að ræða við önnur félög strax í janúar. Það vill Mourinho ekki, heldur sér hinn 29 ára gamla Belga fyrir sér í lykilhlutverki og hefur meðal annars látið hafa eftir sér að Fellaini sé mun mikilvægari fyrir liðið en margir gera sér grein fyrir.

Fellaini kom til United frá Everton fyrir 27,5 milljónir punda árið 2013 og kom við sögu í 47 leikjum í öllum keppnum á síðasta tímabili. Aðeins Paul Pogba, Ander Herrera og Marcus Rashford komu við sögu í fleiri leikjum.

Talið er að fjársterk félög í Tyrklandi og í Kína bíði þess að geta boðið Fellaini gull og græna skóga fyrir að ganga til liðs við þau í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert