Hljómar eins og við séum lélegastir í deildinni

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var orðinn pirraður á fréttamannafundi liðsins í dag þegar hann var þráspurður út í vandræðagang liðsins síðustu vikur.

Liverpool mætir Leicester í ensku úrvalsdeildinni um helgina, en liðin mættust síðast á þriðjudagskvöld þegar Leicester henti lærisveinum Klopp út úr enska deildabikarnum. Liverpool hefur átt slæmu gengi að fagna og Klopp er meðvitaður um það.

„Þú getur ímyndað þér hvað við erum í erfiðri stöðu. Við spilum mjög vel en að lokum skorum við ekki nógu oft, sem ég held þó að sé ekki stóra vandamálið. Við þurfum að halda betri einbeitingu og vera beittari í okkar sóknarleik,“ sagði Klopp á fréttamannafundi.

„Ég þarf að hjálpa leikmönnunum að vera jákvæðir. Við erum að skapa okkur færi en við náum ekki að skora og það er það versta,“ sagði Klopp sem var svo spurður út í varnarleikinn.

„Ef þú mundir bjóða mér það að liðið mitt spilaði frábærlega í að verjast föstum leikatriðum en spilaði ekki góðan fótbolta, þá mundi ég velja það fyrra. Ég þekki vandamálin og veit alveg hvað þarf að gera. Að tala um það skapar bara fyrirsagnir því það hljómar eins og við séum lélegastir í deildinni,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert