Í fyrsta sinn í tæp 60 ár

Manchester City hefur farið á kostum á tímabilinu.
Manchester City hefur farið á kostum á tímabilinu. AFP

Manchester City varð um helgina fyrsta liðið til að skora fimm mörk eða meira í þriðja leiknum í röð í efstu deild á Englandi í 59 ár.

Lærisveinar Pep Guardiola tóku liðsmenn Crystal Palace í kennslustund og unnu stórsigur, 5:0. Þetta var þriðji leikurinn í röð sem City skorar fimm mörk eða meira í deildinni en fyrir leikinn gegn Palace hafði Manchester-liðið burstað Watford, 6:0, og þar á undan Liverpool, 5:0.

Síðasta liðið til að skora fimm mörk eða fleiri í þremur leikjum í röð í efstu deild á Englandi var Blackburn sem afrekaði það tímabilið 1958-59.

Manchester City hefur skorað 21 mark í fyrstu sex leikjum sínum í deildinni og er í toppsæti deildarinnar með 16 stig, jafnmörk og Manchester United sem hefur lakara markahlutfall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert