Kannski er krísa hjá Gylfa og félögum

Ronald Koeman.
Ronald Koeman. AFP

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga hjá Everton, viðurkennir að það sé hugsanlega komin krísa hjá liðinu eftir slæma byrjun á tímabilinu. 

Everton hefur aðeins unnið tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni til þessa og er liðið í 16. sæti með átta stig eftir 1:1-jafntefli gegn Brighton í síðustu umferð. Liðið hefur farið illa af stað í Evrópudeildinni og er aðeins með eitt stig eftir 3:0-tap gegn Atalanta og 2:2-jafntefli gegn Apollon Limassol. 

Everton mætir Lyon á heimavelli annað kvöld og var Koeman spurður út í stöðu sína hjá félaginu. 

„Kannski er krísa hjá okkur. Allir vita að störf knattspyrnustjóra eru erfið og hlutirnir breytast hratt. Auðvitað erum við ekki sáttir við að vinna ekki fleiri leiki fyrir stuðningsmennina okkar, það hefur ekki gengið upp hjá okkur hingað til. Við verðum að halda áfram að leggja mikið á okkur, það er það eina sem við getum gert,“ sagði Koeman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert