„Alltaf horft á stjórann“

Ronald Koeman, áhyggjufullur á svip í kvöld.
Ronald Koeman, áhyggjufullur á svip í kvöld. AFP

„Ég er sterkur og er að gera allt sem ég get. En ef stjórnin telur að ég sé ekki rétti maðurinn í starfið þá mun hún segja mér það,“ sagði Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, eftir 2:1-tap gegn Lyon í Evrópudeildinni í kvöld.

Everton hefur gengið illa á leiktíðinni og byrjunin er sannarlega ekki sú sem Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton bjuggust við. Ronald Koeman keypti leikmenn fyrir 160 milljónir punda í sumar, þar af Gylfa á 45 milljónir punda, en sala liðsins á Romelu Lukaku, sem hefur farið hamförum með liði Manchester United í haust, er að reynast þeim bláklæddu erfið.

Sjá frétt mbl.is: Gylfi lagði upp og skaut í stöng

Spurður í kvöld hvort hann telji að hann sé undir meira eftirliti en venjulega frá sínum yfirmönnum sagði Koeman: „Að sjálfsögðu. Ef liðið er ekki að vinna og ekki að spila eins vel og það kannski getur, þá er alltaf horft á stjórann. En lokaákvörðunin hvílir hjá stjórninni, ekki mér,“ sagði Koeman.

Hafa hvorki sjálfstraust né getu í að spila stutt

Everton hefur ekki unnið í síðustu fjórum leikjum, er með eitt stig eftir þrjá leiki í Evrópudeildinni og átta stig eftir átta leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem liðið er í 16. sæti.

„Það verður mjög erfitt að komast áfram,“ sagði Koeman um möguleikana í Evrópu.

Gylfi Þór Sigurðsson var hvíldur í kvöld og hóf hann leik á bekknum. Wayne Rooney var einnig hvíldur og var ekki einu sinni í hóp. Gylfi Þór kom inn í lið Everton á 57. mínútu og skapaði strax usla með spyrnum sínum. Hann lagði upp fyrra markið á Ashley Williams með góðri aukaspyrnu og skaut svo í stöng skömmu síðar úr aukaspyrnu.

Gylfi Þór hitar upp í kvöld.
Gylfi Þór hitar upp í kvöld. AFP

Koeman segir að þetta sé leiðin fyrir Everton að skora þessa dagana og segir hann að liðið sé ekki tilbúið að spila boltanum úr öftustu línu. Leið eitt verði því að vera fyrir valinu.

„Við þurfum að bæta okkur með boltann. Við gerum of mörg mistök. Liðið er ekki tilbúið til að spila úr öftustu línu. Við þurfum að spila beinskeyttari bolta. Aðstæðurnar eru þannig að við þurfum að beita löngum boltum frekar en stuttum. Við höfum hvorki sjálfstraust né gæðin í hitt núna,“ sagði Koeman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert