Leicester-menn enn að jafna sig

Kasper Schmeichel er lykilmaður hjá Leicester. Nú er Shakespeare horfinn …
Kasper Schmeichel er lykilmaður hjá Leicester. Nú er Shakespeare horfinn á brott. AFP

Leikmenn Leicester City eru ekki búnir að jafna sig á brottrekstri stjóra síns, Craigs Shakespeare sem rekin var úr starfi aðeins fjórum mánuðum eftir að hann var ráðinn til lengri tíma, en hann tók tímabundið við af Claudio Ranieri, sem gerði liðið eftirminnilega að enskum meisturum 2014-15.

„Ég talaði við leikmennina í dag og þeir eru ekki alveg búnir að jafna sig,“ sagði tímabundinn stjóri liðsins, Michael Appleton og sagði að sama ætti við um Shakespeare.

„En ég er viss um að hann muni horfa framtíðina björtum augum,” sagði Appleton.

Leicester er í þriðja neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið hefur unnið einn af síðustu sex leikjum sínum.

Appleton vildi ekki svara því hvort hann sæi sjálfan sig taka við liðinu en Chris Coleman, þjálfari Wales, og Sean Dyche, stjóri Jóhanns Berg Guðmundssonar hjá Burnley, hafa verið orðaðir við hlutverkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert