Englendingarnir voru hræddir

Hörður Björgvin Magnússon stimplaði sig vel inn í íslenska landsliðið …
Hörður Björgvin Magnússon stimplaði sig vel inn í íslenska landsliðið í undankeppni HM. mbl.is/Golli

Í löngu viðtali við The Guardian í dag rifjar landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon upp 2:1-sigur Íslands á Englandi, sem þá lék undir stjórn Roy Hodgson, á EM í knattspyrnu í Frakklandi í fyrrasumar.

Þeir Hodgson og Hörður hittast aftur í kvöld þegar Bristol City, sem Hörður leikur með, tekur á móti Crystal Palace en Hodgson tók þar við stjórnartaumunum í síðasta mánuði. Liðin eigast við í enska deildabikarnum.

„Ég fæ örugglega minningarnar upp í hugann þegar ég sé hann,“ segir Hörður við The Guardian. Hann þreytist ekki frekar en enskir blaðamenn á að rifja upp hvernig fór í leiknum fræga í Nice.

„Ég fylgdist með af varamannabekknum þegar Rooney skoraði úr vítinu og hugsaði með mér; Jæja, það verður erfitt fyrir okkur að snúa þessu við. En hugarfarið hjá íslenska liðinu er öðruvísi, alveg sérstakt. Við vissum að enska liðið yrði undir mikilli pressu frá blaðamönnum og þjóðinni allri ef það næði ekki að vinna Ísland. Við sáum það á leikmönnunum. Þeir voru hræddir. Það var ótrúlegt að sjá viðbrögðin í Englandi, og svona fáum dögum eftir Brexit þá var þetta mjög slæmt fyrir þjóðina,“ segir Hörður. „Mér þykir fyrir þessu,“ bætir hann við brosandi.

Sendi Dybala skilaboð vegna HM

Hörður fór ungur að árum frá Fram til Juventus á Ítalíu og talar talsvert um árin þar í viðtalinu. Hann er greinilega enn í sambandi við fyrrverandi liðsfélaga þar, eins og argentínska stjörnuframherjann Paulo Dybala sem hann vill mæta á HM í Rússlandi næsta sumar.

„Ég er með næsta sumar í huga alla daga, að Ísland sé á leiðinni á HM. Þetta er meira en draumur. Ég fékk skilaboð frá Dybala þegar við komumst áfram og ég sendi honum það sama og sagðist hlakka til að sjá hann í Rússlandi. Vonandi verðum við saman í riðli,“ segir Hörður.

Nánar er rætt við Hörð í viðtalinu á vef The Guardian sem sjá má hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert