Gylfi segir sjálfstraustið vera að koma

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu telur að leikmenn Everton séu smám saman að öðlast meira sjálfstraust eftir afar slæma byrjun á keppnistímabilinu en liðið gerði jafntefli, 2:2, við Crystal Palace á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag þar sem Gylfi lagði upp seinna mark liðsins.

David Unsworth, sem stýrir liðinu til bráðabirgða eftir að Ronald Koeman var rekinn, hrósaði sínum mönnum mjög eftir leikinn og sagði að leikmennirnir gæfu allt sem þeir ættu.

Gylfi sagði við vef Everton að hann teldi að leikmenn liðsins hefðu nægt sjálfstraust til að snúa blaðinu við en honum er hrósað í greininni fyrir mikla vinnusemi í leiknum, þar sem framlag hans hefði verið gott dæmi um framlag leikmannanna.

„Eftir að hafa lent tvisvar undir í leik á útivelli þá sættir maður sig við stig. Við gerðum sjálfum okkur erfitt fyrir í byrjun leiks en getum verið. Það er svo sannarlega karakter í þessu liði og baráttuvilji. Við sýndum það í dag og líka í leiknum gegn Watford, en við verðum að fara að byrja leikina betur og ná forystunni. Sjálfstraustið er að koma og við vitum að þó við lendum undir getum við haldið okkur inni í leiknum," sagði Gylfi.

„Við lékum ekki nógu vel í fyrstu leikjum tímabilsins en erum staðráðnir í að snúa blaðinu við. Menn hafa lagt afar hart að sér undanfarnar vikur. Markmiðið í dag var að vinna annan sigurinn í röð en við erum smám saman að nálgast okkar stað," sagði Gylfi og hrósaði Unsworth.

„Stjórinn hefur gert virkilega vel. Við erum komnir í betra form hjá honum og hann byggir upp sjálfstraustið. Við unnum síðast og gerðum jafntefli í dag og þetta eru því framfarir. Hann hefur ekki bara eflt baráttuandann, hann hefur skipulagt okkur betur og kemur sínum skilaboðum vel á framfæri. Hann kveðst hafa trú á okkur og að við séum nægilega góðir. Við vitum það sjálfir og þurfum að sýna það," sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert