Pogba minnti rækilega á sig

Paul Pogba fagnar marki sínu fyrir Manchester United gegn Newcastle …
Paul Pogba fagnar marki sínu fyrir Manchester United gegn Newcastle United í dag. AFP

Paul Pogba lagði upp eitt mark og skoraði annað þegar Manchester United vann öruggan 4:1-sigur gegn Newcastle United í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Old Trafford í kvöld.

Það var raunar Newcastle United sem komst óvænt yfir í leiknum, en Dwight Gayle skoraði með hnitmiðuðu skoti sem fór í stöngina og inn eftir góðan undirbúning hjá DeAndre Yedilin. Adam var hins vegar ekki lengi í paradís hjá Newcastle United. 

Pogba, sem var að spila sinn fyrsta leik eftir að hafa meiðst aftan í læri í september síðastliðnum, lagði upp jöfnunarmark Manchester United fyrir Anthony Martial um það 20 mínútum síðar. Pogba sendi góða fyrirgjöf inni á vítateig Newcastle United, Martial stökk þar manna hæst og stangaði boltann í netið. 

Næsta mark Manchester United kom svo úr nokkuð óvæntri átt, en Chris Smalling kom liðinu yfir undir lok fyrri hálfleiks. Fyrirgjöf Ashley Young rataði beint á kollinn á Smalling sem var staddur á fjærstönginni og miðvörðurinn stýrði boltanum í netið með skalla sínum.  

Zlatan hefur hrist af sér meiðslin

Pogba var svo aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks, en hann kom Manchester United í 3:1 þegar hann skoraði þá með skoti af stuttu færi. Marcus Rashford skallaði boltann fyrir fætur Pogba sem gat vart annað gert en að skora.

Romelu Lukaku batt síðan enda á sjö leikja markaþurrð sína fyrir Manchester United þegar hann skoraði fjórða mark Manchester United um miðbik seinni hálfleiks. Lukaku kom sér sjálfur í gott færi og þrumaði boltanum fram hjá Rob Elliot í marki mark Newcastle United.

Til þess að kóróna gott kvöld fyrir Manchester United sneri Zlatan Ibrahimovic inn á völlinn á nýjan leik undir lok leiksins, en hann hefur glímt við hnémeiðsli síðan í apríl fyrr á þessu ári. 

Manchester United minnkaði forskot nágranna sinna, Manchester City, sem trónir á toppi deildarinnar. Manchester United situr í öðru sæti deildarinnar með 26 stig eftir þennan sigur, en Manchester City sem vermir toppsæti deildarinnar er átta stigum á undan Manchester United. 

Man. Utd 4:1 Newcastle opna loka
90. mín. Zlatan Ibrahimovic (Man. Utd) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert