Crouch setti skrítið met á Englandi

Peter Crouch í leiknum í gærkvöldi.
Peter Crouch í leiknum í gærkvöldi. AFP

Peter Crouch, hinn hávaxni framherji Stoke í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, setti met í deildinni í gærkvöldi þegar Stoke gerði jafntefli við Brighton, 2:2.

Crouch kom inn á sem varamaður í leiknum og var það alls í 143. sinn sem hann kemur af bekknum í úrvalsdeildinni. Enginn annar leikmaður í sögu deildarinnar hefur oft verið kallaður til af bekknum.

Crouch er orðinn 36 ára gamall og hefur spilað með Tottenham, Aston Villa, Southampton, Liverpool, Portsmouth og Stoke í ensku úrvalsdeildinni, en alls hefur hannn komið við sögu í 439 leikjum í deildinni. Það þýðir að 32,5% af leikjunum hefur hann komið inn á sem varamaður.

Sá sem átti metið áður en framherjinn Shola Ameobi, sem gerði garðinn helst frægan hjá Newcastle. Hann kom 142 sinnum inn á sem varamaður í 298 leikjum í deildinni og spilaði því rúmlega 47% allra leikja sinna í úrvalsdeildinni sem varamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert