„Áttum að vera 5:0 yfir í hálfleik“

José Mourinho á hliðarlínunni í kvöld.
José Mourinho á hliðarlínunni í kvöld. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, kenndi slakri færanýtingu í fyrri hálfleik um að liðið hafi tapað fyrir Basel í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

„Við töpuðum vegna þess að í fyrri hálfleik hefðum við átt að vera 5:0 yfir en okkur tókst ekki að skora þrátt fyrir að vera með yfirburði. Okkur var fyrirmunað að skora þrátt fyrir að fá öll þessi færi.

Ég held að megnið af seinni hálfleik hafi sú tilfinning verið hjá mönnum að það væri í lagi að leikurinn endaði 0:0 en svo skoraði Basel markið undir lokin. Við getum sjálfum okkur um kennt hvernig fór,“ sagði Mourinho.

Manchester United er þrátt fyrir tapið svo gott sem komið áfram en til þess að svo verði ekki þarf liðið að tapa fyrir CSKA Moskva á Old Trafford með sex marka mun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert