Vill feta í fótspor Giggs

Juan Mata.
Juan Mata. AFP

Spænski miðjumaðurinn Juan Mata, sem leikur með Manchester United, vill feta í fótspor goðsagnarinnar Ryans Giggs.

Mata vill spila fram að fertugu eins og Giggs gerði en þessi 29 ára gamli Spánverji gekk til liðs við Manchester United í janúar 2014. Núgildandi samningur hans við United rennur út eftir tímabilið en Manchester-liðið hefur þann möguleika að bæta einu ári við.

„Það yrði frábært að spila þar til ég verð 40 ára eins og Ryan Giggs gerði. En það er langt í það, það eru ennþá 11 ár. Ég er ánægður hjá félaginu sem er risastórt og stuðningurinn við það er gríðarlega mikill,“ segir Mata í viðtali við ESPN.

José Mourinho seldi Mata til Manchester United þegar hann var við stjórnvölinn hjá Chelsea en þegar Mourinho tók svo við Manchester-liðinu árið 2016 héldu margir að dagar Mata væru taldir. Annað hefur hins vegar komið á daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert