Brjálaður út í leikmenn Everton

Wayne Rooney og félagar áttu afleitt kvöld.
Wayne Rooney og félagar áttu afleitt kvöld. AFP

Everton, lið Gylfa Þórs Sigurðssonar, beið algjört afhroð á heimavelli í Evrópudeildinni í knattspyrnu þegar liðið tapaði fyrir Atalanta, 5:1, sem fullkomnar niðurlægingu liðsins í Evrópukeppninni þetta árið.

Aðeins rúmlega 17 þúsund áhorfendur mættu á völlinn, en Everton átti ekki möguleika á að komast áfram fyrir leikinn enda aðeins krækt í eitt stig í riðlinum. David Unsworth, sem stýrt hefur Everton síðasta mánuðinn á meðan leit að stjóra til langs tíma stendur yfir, var brjálaður út í leikmenn sína.

„Þegar þú spilar í þessari treyju þarftu að spila af stolti og leggja þig fram. Leikmennirnir gerðu það alls ekki. Þetta var ömurlegt, en ég sagði mönnum fyrir leik að stuðningsmennirnir borguðu vel til að sjá okkur. Þetta skilur eftir óbragð í munni þeirra og mínum líka,“ sagði Unsworth eftir leik.

Gylfi Þór var meðal leikmanna sem voru hvíldir í leiknum í gær, en þeir sem fengu tækifærið fengu þau skilaboð að þeir ættu að gera Unsworth það erfitt fyrir að taka þá úr liðinu fyrir næsta leik.

„Þvert á móti gerðu þeir flestir mér það afar auðvelt,“ sagði Unsworth.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert