Hver myndi ekki vilja vera stjóri Everton?

David Unsworth.
David Unsworth. AFP

Rúmur mánuður er liðinn frá því að forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Everton sögðu Hollendingnum Ronald Koeman upp störfum sem knattspyrnustjóra liðsins og hafa Gylfi Þór Sigurðsson og félagar haft David Unsworth sem bráðabirgðastjóra frá þeim tíma.

Undir hans stjórn hefur liðið aftur á móti aðeins unnið einn leik í sex leikjum, gert eitt jafntefli og tapað fjórum.

Fréttir frá Englandi frá því í morgun sögðu frá því að nú væru aðeins þrjú nöfn á lista yfir mögulega stjóra Everton-liðsins. Spurður hvort Unsworth sjálfur væri á þeim lista sagðist hann ekki vita það.

„Ég veit það ekki. Ég var bara koma inn af æfingu og var að sjá þetta núna sjálfur,“ sagði Unsworth í dag. „Ef það er búið að þrengja listann enn frekar varðandi það að finna varanlegan stjóra þá er það frábært,“ sagði Unsworth.

Hann segir óvissuna um næsta stjóra liðsins ekki trufla sig neitt. „Það er ekkert vandamál fyrir mig,“ sagði Unsworth sem sagðist aftur á móti vilja starfið.

„Að sjálfsögðu. Þetta er frábært starf fyrir hvaða knattspyrnustjóra sem er. Hver myndi ekki vilja vera knattspyrnustjóri Everton?“ sagði Unsworth en leikmenn á borð við Wayne Rooney hafa hrósað Unsworth að undanförnu sem bendir til þess að þeir vilji hafa hann áfram.

Everton er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 12 stig og mætir Southampton á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert