Vatni og mjólk hellt yfir Mourinho

José Mourinho á hliðarlínunni í gær.
José Mourinho á hliðarlínunni í gær. AFP

Allt ætlaði að sjóða upp úr eftir leik Manchester-liðanna United og City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.

Ensku miðlarnir BBC og Sky greina báðir frá því að José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi fengið yfir sig bæði vatn og mjólk í leikmannagöngunum eftir leik en hann hafði þá rifist heiftarlega við nokkra leikmenn City. Fannst honum andstæðingurinn hafa sýnt óvirðingu með óhóflegum fagnaðarlátum í leikslok, en sigurinn gaf City 11 stiga forskot á toppnum.

Mourinho á til að mynda að hafa hnakkrifist við Ederson, markvörð City, á portúgölsku áður en hann fór í viðtöl en þar minntist hann hins vegar ekki á orðaskiptin. Eftir viðtölin mun hann svo hafa fengið yfir sig vökvann.

Auk þess sem Mourinho var holdvotur mun Mikel Arteta, sem er í þjálfarateymi City, hafa verið blóðugur í framan eftir átökin eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert