Betra í súmóglímunni

Leikmenn Manchester City fögnuðu sigrinum á Manchester United vel og …
Leikmenn Manchester City fögnuðu sigrinum á Manchester United vel og það mun hafa reitt José Mourinho, stjóra United, til reiði. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, tjáði sig í dag um ólætin í leikmannagöngunum á Old Trafford um helgina eftir 2:1-sigur Manchester City á Manchester United.

Á meðal þess sem á að hafa gerst er að José Mourinho hafi fengið mjólkurgusu yfir sig, eftir rifrildi við leikmenn City, og að Mikel Arteta úr þjálfarateymi City hafi blóðgast í andliti. Arteta er einmitt fyrrverandi lærisveinn Wenger hjá Arsenal.

„Ég heyrði um þetta. Stundum gerist svona lagað. Þetta er skondið því í fjölmiðlum gerið þið svo mikið úr þessum stórleikjum, eins og þetta sé upp á líf og dauða, og svo gerist þetta,“ sagði Wenger.

„Þetta hefur gerst hjá okkur, þetta gerðist hjá þeim. Þetta er óheppilegt. Best væri ef að menn legðu sig 100% fram á vellinum en væru svo eins og englar utan hans. Þannig er það ekki alltaf. Maður vill að ástríðan sé öll inni á vellinum,“ sagði Wenger.

„Það er erfitt að taka því þegar maður tapar leik, að sjá fagnaðarlæti hinna. Þegar ég var í Japan kunni ég vel að meta súmóglímuna því maður gat aldrei séð hvor hafði unnið. Sigurvegarinn sýndi aldrei neina gleði því virðingin fyrir andstæðingnum er svo mikil,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert