Ég hvatti þá til þess að fagna

Pep Guardiola og hans menn fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri vel …
Pep Guardiola og hans menn fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri vel á sunnudaginn. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, tjáði sig í dag um ólætin í leikmannagöngunum á Old Trafford á sunnudag þegar sló í brýnu á milli Manchester-liðanna.

Samkvæmt heimildum ESPN fögnuðu City-menn sigrinum góða á Manchester United, sem veitti þeim 11 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, með miklum látum inni í búningsklefa eftir leik. Spiluð hafi verið há tónlist og mikið heyrst í mannskapnum, sem hafi leitt til rifrildis og átaka á milli leikmanna og starfsliðs liðanna tveggja. Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á ólátunum, sem meðal annars munu hafa leitt til þess að José Mourinho, stjóri United, fékk mjólkurgusu yfir sig og Mikel Arteta úr þjálfarateymi City fékk skurð í andlit.

„Leikmennirnir lögðu allir hart að sér til að vinna leikinn. Eftir leik tókust menn í hendur. Sumir leikmenn City fóru til að fagna með stuðningsmönnum og ég hvatti leikmennina til þess að fagna í búningsklefanum. Þegar maður tapar þá sættir maður sig við það, og þegar maður vinnur þá fagnar maður. Til að mynda fögnuðum við í Napoli,“ sagði Guardiola, en City tryggði sér sæti í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu með útsigri gegn Napoli fyrr í vetur.

„Það sem gerðist gerðist, og vonandi kemur þetta ekki fyrir aftur. Við munum senda knattspyrnusambandinu yfirlýsingu. Ég ætla ekki að tjá mig frekar um það,“ sagði Guardiola og vildi ekki svara því hvort að Mourinho hefði komið inn í búningsklefa City.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert